Vandfundinn er staður á sunnudagseftirmiðdegi þar sem hægt er að rölta inn í svo dúndrandi stemmningu í næsta almenningsgarði að fötluðustu mjaðmir taka að dilla sér.

Hér gerast hlutirnir alla sunnudaga. Bumbusláttur og stuð frameftir kvöldi. Mynd Allan Reyes
Hér gerast hlutirnir alla sunnudaga. Bumbusláttur og stuð frameftir kvöldi. Mynd Allan Reyes

Einn slíkur að minnsta kosti er þó til. Fyrir neðan glæsilegan minnisvarðann um Alfonso kóng þrettánda í Buen Retiro garði í Madríd á Spáni.

Garðurinn út af fyrir sig er fyrir alla og fjölmargt þar að sjá og gera og ekki síður fyrsta flokks staðsetning til að gera alls ekki neitt. Hér líður þreyta og þynnka úr fólki eins og hellt sé úr fötu.

Hér koma saman alla sunnudaga ársins, nema þegar frostið bítur sem harðast, hópar fólks með bongótrommur og berja þær sem mest þeir mega vel fram á kvöld. Við undirleikinn taka hinir og þessir upp á því að dansa og dilla sér og á stundum mæta heilu danshóparnir og sleppa fram af sér beislinu í trylltum dansi. Aðrir listamenn eru líka á vappi að sýna listir eða æfa sig fyrir næsta sirkus sem í bæinn kemur.

Staðurinn sjálfur er tignarlegur og útsýn yfir manngert vatn þar sem hægt er að leigja báta og þykjast sigla inn í sólarlagið ef því er að skipta.

Þá skal fólk vera óhrætt að heimsækja garðinn jafnvel þó bumbusláttur sé ekki á vinsældarlistanum. Hér er mikið um að vera allar helgar og velflesta sumardaga af ýmsu tagi og garðurinn sjálfur er forvitnilegur.