Þið þekkið þetta með ríkisstarfsmenn. Þegar komið er á spenann er engin þörf á að sýna fagmennsku, lipurð og þjónustu. Þú færð þitt hvort sem er og skitinn almenningur má éta það sem úti frýs.

Fyrsta sinni er nú hægt að heimsækja Sádí-Arabíu sem venjulegur ferðamaður.

Samkvæmt upplýsingum á vef utanríkisráðuneytisins nú 10. október 2019 þurfa allir þeir Íslendingar sem hug hafa að heimsækja Sádí-Arabíu að kanna hvort þeir komist inn í landið og þá hvernig skal haga því að fá vegabréfsáritun. Það skal gert með sérstöku skeyti á sendiráð Sáda í Stokkhólmi.

Það var og.

Svo virðist sem engir af hámenntuðum starfsmönnum ráðaneytisins eyði stundarkorni að lesa fréttir. Það vill nefninlega svo til að fyrir þremur vikum opnaði þetta lokaða land fyrsta sinni fyrir túristaávísun inn í Sádí-Arabíu. Nú geta velflestir áhugasamir um þetta guðsvolaða land með sinn  morðóða krónprins Mohammad bin Salman í fylkingarbrjósti sótt Sádí heim og Íslendingar þar meðtaldir. Það án þess að hafa eitt einasta samband við erindreka í Stokkhólmi.

Ísland og Íslendingar eru nefninlega á lista þeirra þjóða sem sótt geta um 90 daga áritun til Sádí-Arabíu sem gildir í heilt ár og það nægir að heimsækja eina einustu vefsíðu.

Ýmislegt segir okkur að það megi alveg fækka nokkrum störfunum í ráðuneyti Guðlaugs Þórs án þess að þjónustan skerðist um þumlung frá því sem nú er…