Margt skrýtið í kýrhausnum og gott ef ekki kýrauganu líka. Ekki hvað síst er viðkemur dótturfélagi Icelandair: Air Iceland Connect.

Sko til! Hræódýrt að fljúga norður eða að norðan til eða frá Keflavík. En mikið mun dýrara til Reykjavíkur og sömu leið til baka. Mynd Craigjduffy

Nýlegt, en ekki svo töff erlent nafn Flugfélags Íslands, dugar ekki til að slá ryki í augu ritstjórnar Fararheill. Það vekur vægast sagt furðu okkar að þetta flugfélag sem kvartað hefur ítrekað opinberlega yfir „himinháum sköttum og gjöldum“ á innanlandsflug um áraraðir getur allt í einu boðið Akureyringum upp á flug til Keflavíkur eða þá leið til baka á tæplega 90 prósent LÆGRA VERÐI en það getur boðið þeim er vilja frá Akureyri til Reykjavíkur eða sömu leið til baka.

Engan þarf Sherlock til að sjá þetta svart á hvítu. Það nægir að skoða lægsta verð í boði til og frá Akureyri til Reykjavíkur annars vegar og Keflavíkur hins vegar til að sjá skýra mynd.

Allra lægsta verðið á flug aðra leið frá Akureyri til Reykjavíkur eða öfugt næstu mánuðina, samkvæmt vef AirIcelandConnect, kostar einstakling að LÁGMARKI 8.125 krónur.

 

Ókei, ekkert hræðilegt við það. Vissulega sama verð og ódýrasta flug aðra leið til Köben og London þessi dægrin en þetta er jú lítið land og fámennt. En hvað kemur í ljós ef ferðast skal til Akureyrar frá Keflavík eða öfugt næstu mánuði?

Þetta:

Hmmm?

Hér hefur einhvað gloprast niður hjá fjármálaséníi AirIcelandConnect. Það reynist vera 86% verðmunur á flugi til Akureyrar frá Keflavík annars vegar og Reykjavík hins vegar. Sami verðmunur finnst sömu leiðir til baka.

Látum okkur nú sjá. Það tekur LENGRI TÍMA að fljúga frá Keflavík til Akureyrar og öfugt en það tekur að fljúga frá Reykjavík til Akureyrar og öfugt. Rösklega fimm mínútum munar þar að lágmarki.

Töluvert ljúfara er að eyða biðtíma í Leifsstöð en í flugstöðinni á Reykjavíkurflugvelli. Í Leifsstöð hægt að fá sér rautt á barnum og kaupa gotterí fyrir börnin í fríhöfninni á helmings afslætti meðan rellunnar er beðið. Í flugstöðinni í Reykjavík fæst verkamannakaffi á þúsund kall og gotterí fyrir börnin þúsund prósent dýrara en í Costco. Í Leifsstöð er hlýtt og gott en á Reykjavíkurflugvelli þurfa gestir að berja hvern annan til hita yfir vetrarmánuðina eins og steinaldarfólk sem hefur ekki fundið upp eldinn. Enn merkilegri sú staðreynd að samkvæmt smáa letrinu á vef AirIcelandConnect eru opinber gjöld HÆRRI frá Reykjavíkurflugvelli en frá Leifsstöð per haus. Opinber gjöld fyrir flug frá Keflavík til Akureyrar nema að lágmarki 1.885 krónum. Ætli sami aðili til Akureyrar frá Reykjavíkurflugvelli þarf að punga út 2.390 krónum til hins opinbera!!! Ömurlegur flugvöllur kostar einstakling því meira en sæmilegur flugvöllur.

Ók, nóg um það rugl.

AirIcelandConnect tekur auðvitað kyrfilega fram að ENGUM sé heimilt að fljúga með rellum þeirra frá Keflavík NEMA VERIÐ SÉ AÐ KOMA BEINT ÚR MILLILANDAFLUGI. Þannig komast þeir hjá því að bjóða landslýð öllum þessi lágu fargjöld frá Keflavík eða til umfram Reykjavíkurflug.

Burtséð frá öllu ofangreindu rugli þá er okkur hér á ritstjórn líka spurn hvort AirIcelandConnect sé yfirhöfuð heimilt að útiloka Jón og Gunnu frá flugi frá Keflavík til Akureyrar nema ef þau skötuhjú hafi verið að koma frá Kanarí. Það eru jú til lög sem banna mismunun fólks og án þess að á ritstjórn sé neinn lögfræðimenntaður bendir ýmislegt til að bann AirIcelandConnect brjóti í bága við þau mannréttindaákvæði.

Kemur ekki á óvart. Icelandair sjaldan gert annað en níðst á landslýð með okri og einokun og stórmerkilegt að þarna úti finnist einstaklingar sem finnst ekkert dásamlegra en það flugfélag.