Sé fólk á ferð í Englandi, nánar tiltekið í Devonskíri á suðurströnd landsins, og hafi minna en engan áhuga á enska boltanum er ekki úr vegi að heimsækja nýuppgert sveitasetur hins þekkta rithöfundar Agatha Christie. Frægt sumarhús hennar hefur nú verið formlega opnað almenningi.

Sveitasetur Agatha Christie opið áhugasömum
Sveitasetur Agatha Christie opið áhugasömum

Christie á sér dyggan aðdáendahóp um heim allan þó langt sé síðan hún féll frá  og sá hópur sækir stíft að sjá og skoða allt sem kerlingin kom nærri. Ekki síst sveitasetrið Greenway sem sagt er hafa verið fyrirmyndin í allnokkrum bóka hennar.

Fyrir okkur hin sem kannski fórum ekki á límingum yfir bókunum er engu að síður ástæða til að kíkja við í Greenway því staðurinn er fjarska fallegur hátt í hlíðum fyrir ofan ánna Dart í Devon héraði. Þá er aukinheldur hægt að leigja alla efstu hæð hússins ef svo ber undir og eyða hér nótt eða fleirum. Það kostar þó skildinginn.

Greenway er opið yfir sumartímann frá 09 til 17 dag hvern en skemur yfir veturinn. Hægt að kaupa miða hvort sem er til að skoða setrið eða landareignina sem er stór og mikil.

Fjölmargar leiðir til að komast á þessar slóðir. Frá Bristol tekur um klukkustund að aka hingað en um þrjár frá London. Lestir og rútur ganga frá báðum stöðum.