Enn og aftur koma sólarvörur frá hinum þekkta framleiðanda Nivea afar illa út í hávísindalegum könnunum sem norska Neytendaráðið hefur látið framkvæma. Þær fá falleinkunn sem fyrr.

Þessar vörur komu vel út í norskri rannsókn. Mynd Norsk Forbrugerrad
Þessar vörur komu vel út í norskri rannsókn. Mynd Norsk Forbrugerrad

Fararheill hefur áður sagt lesendum frá þessum árlegu könnunum sem ríkisstofnunin stendur fyrir og er að öllu leyti óháð rannsókn ólíkt mörgum öðrum slíkum. Þessi hefur það einnig umfram flestar aðrar að þar er ekki eingöngu verið að líta til þess hvort og hve lengi sólarvörn eða sólarolía ver húð fólks heldur einnig hvort þau efni sem í vörunum eru geta haft önnur og verri áhrif á hormónastarfsemi og eða ofnæmiskerfið.

Allnokkrar nýjar tegundir eru prófaðar að þessu sinni og svipað niðurstöðum fyrri ára eru vörur frá Vichy, Garnier, Eucerin og Dermica að koma vel út. Botnsætið verma hins vegar sem áður tvær helstu vörur Nivea og eru einu tegundirnar sem fá mínus í öllum flokkum. Þar um að ræða annars vegar Nivea Sun Lotion og Nivea Sun Kids Swim & Play. Þriðja tegundin frá Nivea, Sun Spray, fær mínus í tveimur flokkum af þremur.

Víst er að rannsókn þessi á fullt erindi til Íslendinga þó norsk sé því margar þær vörur sem rannsakaðar eru fást hérlendis og reyndar eru vörur Nivea með þeim allra söluhæstu á landinu. Full ástæða til að endurskoða það miðað við niðurstöðurnar sem sjá má í heild sinni hér.