Það er ein af óskrifuðum reglum samtímans að betri helmingurinn þarf ávallt að komast í verslun eins fljótt og auðið er á erlendri grundu. Vei þeim karlmanni sem ekki sættir sig við það með bros á vör í hvert skipti.

Yfir 90 Tanger afsláttarverslunarkjarnar eru í Bandaríkjunum og þar finnst velflest merkjavara á góðum prísum
Yfir 90 Tanger afsláttarverslunarkjarnar eru í Bandaríkjunum og þar finnst velflest merkjavara á góðum prísum

Framar öllu eru það afsláttarverslanir, outlets, sem fólk vill komast í séu þær til staðar á annað borð enda þar hægt að gera mun betri kaup en ella svo lengi sem fólk sættir sig við að fá ekki það allra nýjasta nýtt úr tískuheiminum.

Þó New York borg sé stútfull af fínum verslunum í öllum hverfum er þar ekki að finna neinar stórvægilegar afsláttarverslanir þar sem fólk getur gengið að tilboðum vísum allan ársins hring. Til þess verður að halda út úr borginni. En klukkustundar keyrsla eða rúmlega svo skilar fólki í minnst tvo allgóða og stóra verslunarkjarna.

♥  Sú fyrri er Woodbury Common Premium Outlets sem er afsláttarbúðakjarni í Central Valley í New York fylki. Þar finnast á litlum bletti einar 220 verslanir, flestar þekktar, sem bjóða vörur sínar á feitum afslætti. Hingað er komist frá New York borg á þjóðvegi I-87 og ekið út af við Harriman. GPS tæki í bílaleigubílum gera þetta ferðalag auðvelt en kjósi fólk ekki að keyra sjálft eru minnst þrjú rútufyrirtæki sem fara á milli daglega. Grey Line rútufyrirtækið fer tólf ferðir daglega og kostar miði fram og til baka 5.300 krónur. Sömuleiðis Hampton Luxury Liner rútufyrirtækið en miðinn með þeim kostar 5.800 krónur.

♥  Seinni afsláttarverslanakjarninn finnst í Riverhead í um 50 mínútna fjarlægð frá New York. Þar stendur Tanger Outlets sem rekur einar 95 slíka kjarna um Bandaríkin öll. Sömuleiðis þar eru hundruðir verslana sem flestar eru merkjaverslanir. Aka verður Long Island Expressway East þjóðveginn úr borginni og út aftur við Exit 72. Rútufyrirtækið Hampton Jitney fer þessa leið daglega og miðaverð fram og aftur 5.100 krónur.

Inni í New York borg sjálfri er vitaskuld hægt að finna afsláttarverslanir líka þó ekki sé þar um kjarna að ræða. Stærstar slíkra eru líklega tvær verslanir Century 21. Önnur í Cortland stræti gegnt hinum nýja One World Tower og hin við 1972 Broadway í Upper West Side. Sú keðja lofar 60 prósenta afslætti að jafnaði frá hefðbundnu verði.


Leave a Reply