Flugfélagið Wow Air hefur síðustu sólarhringa auglýst 20 prósent afslátt af fargjöldum sínum í sumar. Góð hugmynd í alla staði en nokkrar stikkprufur okkar leiða í ljós að afsláttarkjörin eru ekki alveg jafn góð og lofað er.

Auglýsing Wow Air. Þar stendur ekki allt að því 20% afsláttur heldur þeim afslætti lofað. Skjáskot

Umrætt tilboð er í gildi til miðnættis í kvöld samkvæmt auglýsingum Wow Air og sjálfsagt fyrir ferðaþyrsta að skoða hvað er í boði. Flesta munar jú um 20 prósent og hér líka um að ræða flugferðir yfir annatíma í sumar.

Fararheill tók nokkrar stikkprufur af handahófi á vef Wow Air og lét á reyna hvort umræddur 20% afsláttur væri í raun í boði eða bara auglýsingatrix. Það auðvelt því setja þarf inn sérstakan kóða, wowsumar, til að fá fram afsláttarkjörin og þær dagsetningar sem þau ná til.

Ekkert skal fullyrt enda við ekki í stakk búin til að grandskoða öll fargjöld flugfélagsins. En af þeim ferðum sem við kíktum á reyndist hámarks afsláttur fjarri því að ná lofuðum 20 prósentum.

Byrjum á flugi til Dusseldorf í Þýskalandi. Flug út 7. júní og heim aftur 14. júní. Hefðbundið verð á fluginu á ódýrasta farrými, Wow Basic, reyndist 19.997 krónur. Við leituðum aftur á sömu dagsetningum með „wowsumar“ kóðanum og þá datt prísinn niður í 17.592 krónur. Nema við hér höfum lært prósentureikning á kolrangan hátt þá er það afsláttur upp á 13,6 prósent.

Við kíktum á sama túr en á Wow Plus farrýminu þar sem heimilt er að taka með tösku og anda um borð. Þar kemur í ljós að án afsláttarkóðans kostar fargjaldið 32.591 krónu en með afsláttarkóðanum var gjaldið 30.186 krónur. Hér aftur eru afsláttarkjörin langt fyrir neðan það sem lofað er. Raunafsláttur aðeins 7,9 prósent.

En ók. Mögulega hefur eitthvað misfarist á flugi til Dusseldorf. Kíkjum á Detroit. Túr þangað 2. – 16. júlí kostar normalt á Wow Basic farrými án afsláttar 55.497 krónur. Bætum afsláttarkóðanum við og verðið alls 52.283 krónur. Afsláttur vissulega en aðeins 6,1 prósent.

En ók, kannski eitthvað misfarist með afsláttarkjörin á ódýrasta farrýminu. Skoðum Wow Comfy farrýmið og við viljum til Amsterdam þann 31. júlí til heim aftur 10. ágúst. Hefðbundið verð reynist vera 49.291 króna. Bætum kóðanum við og þá lækkar verðið í 47.540 krónur. Það gott fólk er gígantískur afsláttur upp á 3,6 prósent.

Hmm. Við hljótum að vera að gera einhver mistök. Skúli Mogensen er nú ekki að fara að ljúga til um afslætti síns eigin flugfélags?

Höldum til Berlínar og það út 15. ágúst og heim aftur 30. sama mánaðar. Fullt almennt gjald á Wow Plus reynist 35.951 króna. Að viðbættum afsláttarkóðanum er verðið 32.441 króna alls. Það virðist ekki svo slæmt en prósentureikningurinn leiðir annað í ljós. Þetta aðeins afsláttur upp á 9,7 prósent.

Vafalítið er á vef Wow Air að finna fargjald þar sem sannarlega er verið að bjóða 20 prósent lægra verð en almennt. En það ekki nógu gott því auglýsingin segir ekki „allt að því“ 20 prósent afsláttur. Þar stendur skýrum stöfum að afslátturinn nemi 20 prósent á öllum ferðum sem í boði eru á afslætti.

Í því ljósi er hér um skýrt og klárt lögbrot að ræða. En auðvitað enginn að tékka á því nema við.

Hér gildir hið fornkveðna: question everything 🙂

* Úttekt gerð milli 17:20 og 17.40 þann 4. febrúar 2018.