Borgin Frankfurt við Main ánna, eða Frankfurt am Main á frummálinu, er þekkt fyrir ýmislegt. Hún er alþjóðleg fjármálamiðstöð og reyndar af mörgum talin helsta fjármálamiðstöð Evrópu allrar. Slíkt verður engin borg nema með afar nútímalegu yfirbragði, háum klassabyggingum úr stáli og gleri og fyrsta flokks gatnakerfi til að geta tekið mót miklum fjölda lúxusbifreiða sem þar fara um daglega. Frankfurt er stór útgáfa af Reykjavík eins og hún átti að líta út samkvæmt hugmyndum hinna föllnu útrásarvíkinga. Nútímaleg og hröð og miðja alheimsins.

Þá er Frankfurt, eða öllu heldur flugvellir borgarinnar, einnig orðnir frægir enda miðsvæðis í Evrópu og flugvellirnir með helstu tengiflugsflugvöllum heims.

Því miður er það svo að borgin sem slík heillar fáa ferðamenn nema helst þá sem missa sig yfir glerbyggingum og malbiki og er það ein ástæða þess að borgaryfirvöld hafa undanfarin ár reynt sitt besta til að gera Frankfurt að mekka stærri viðburða eins og Bílasýningarinnar í Frankfurt og Bókamessunnar í Frankfurt. Hefur það gengið vel en það segir sitt að ferðamenn láta lítt sjá sig í borginni nema til að fylgjast með einhverju alþjóðlegu.

Í þokkabót er Frankfurt líka sú borg í Þýskalandi þar sem tekjuójöfnuður er hvað mestur og ætti það því ekki að koma neinum á óvart, nema Milton Friedman og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, að glæpir eru töluvert vandamál í Frankfurt; meiri í raun en í öllum öðrum þýskum borgum.

Að þessu sögðu býr borgin þó yfir ákveðnum sjarma eins og allar borgir. Staðsetning hennar við bakka Main árinnar er falleg. Tekist hefur vel að hlúa að þeim sögufrægu byggingum og svæðum sem í borginni eru og hér er mikið úrval menningar.

Til og frá Frankfurt

Alþjóðaflugvöllur Frankfurt, Frankfurt Airport, er fyrsta flokks og reyndar annar stærsti flugvöllur álfunnar. Hingað og héðan er flogið til nánast allra helstu áfangastaða í veröldinni hvort sem er með fólk eða vörur og er umferð mikil.

Völlurinn samanstendur af þremur flugstöðvarbyggingum. Sú þriðja er ný og leysir þá fyrstu og elstu nokkuð af hólmi en sú var komin til ára sinna og tafir og leiðindi regla frekar en undantekning um tíma.

Inn í borgina er einfaldast og fljótlegast að taka S-Bahn hraðlestina sem er fimmtán mínútur á leiðinni. Leiðir S8 og S9 eru bestar til þess arna en endastöðvar þeirra eru hverfstöðvar austan og vestan megin í borginni. Báðar fara um nokkrar stöðvar á leiðinni, meðal annars aðalbrautarstöðina, en sé ætlunin að fara niður í miðborg er vænlegast að fara úr við Taunusanlage eða Hauptwache. Leiðarkort hér. Muna að kaupa miða fyrir brottför á brautarpallinum.

Til umhugsunar: Sé ætlunin að stoppa ekkert í borginni heldur halda áfram för annað fara allar millilandalestir frá aðalbrautarstöðinni og skal fara úr þar.

Leigubíll er svipaðan tíma á leiðinni ef kannski lengur á annatímum. Allir leigubílar nota mæli en bílstjórar, sem flestir eru innflytjendur, hafa margir hverjir ekki náð miklum árangri í ensku 101. Sé þýskan að vefjast fyrir fólki er best að skrifa hótelnafn og heimilisfang á miða og afhenda bílstjóranum. Gróflega má áætla að 3600 krónur kosti inn í miðborg.

Aðeins ein strætisvagnalína fer inn í borgina. Það er lína 61 sem fer sem leið liggur að Frankfurt Südbahnhof en stoppar víða á leiðinni.

Annar vinsæll flugvöllur er Frankfurt Hahn. Sá er meðal annars notaður af smærri flugfélögum Evrópu. Margir hafa brennt sig á því að sá völlur er víðs fjarri borginni sjálfri og tekur um tvær klukkustundir að fara til og frá.

Eina raunhæfa leiðin frá Frankfurt Hahn inn í borgina er með rútu. Ferðin tekur rétt rúmar tvær klukkustundir og kostar far aðra leið 2100 krónur. Endar ferðin við aðalbrautarstöð borgarinnar, Hauptbahnhof, en vagnar fara á klukkustundar fresti frá flugvellinum fram til miðnættis.

Til umhugsunar: Komið hefur fyrir að vélar lendi eftir að rúturnar eru hættar að ganga. Misjöfnum sögum fer af því hversu vel hefur verið orðið við beiðnum um aukaferðir en fræðilega er mögulegt að þurfa að taka leigubíl. Sá rúntur getur kostað allt að 20 þúsund krónum.

Samgöngur og snatterí

Ekkert vandamál er að fara milli staða í borginni. Hér er gott jarðlestarkerfi, U-Bahn, auk spor- og strætisvagna. Þá er hægt að komast til helstu úthverfa með S-Bahn lestarkerfinu.

Líkt og annars staðar er fjöldi afsláttarkorta í boði en ef frá eru talin dagskortin nýtast þau ferðamönnum sem staldra stutt við lítið. Dagskort er hægt að kaupa í öllum sjálfsölum sem finna má við allar stöðvar. Þar má líka kaupa stakan miða sem kostar 415 krónur og duga innan miðborgarsvæðisins. Lengri ferðir kosta meira. Dagskortin fást ódýrust kringum 1100 krónur. Einnig eru í boði svokallaðir stuttmiðar, kurzstrecke, sem kosta 260 krónur en eru aðeins nothæfir sé ferðalagið ekki lengra en kílómeter. Vonlítið er fyrir aðkomufólk að gera sér góða grein fyrir vegalengdum og sektir háar þannig að vænlegra er að kaupa hefðbundin stakan miða. Þá eru sérstakir miðar til og frá flugvellinum sem kosta meira. Vænlegast er að leita hjálpar heimamanna ef efi kemur upp. Keyptir miðar taka strax gildi. Nákvæmt leiðakort hér. Heimasíða samgöngufyrirtækisins hér.

Leigubílar eru ágætur ferðamáti í borginni. Borgin er þrátt fyrir allt tiltölulega lítil og það brýtur ekki bankann að þvælast um með leigara. Þeir hafa allir mæli og litlum fregnum fer af svindli.

Á allra helstu ferðamannastöðum í miðborginni eru nokkrir aðilar sem bjóða hjólreiðatúra í hjólum sem meira eiga skylt við Asíu en Frankfurt. Tekur hvert hjól tvo farþega í sæti og er fín leið til að fara um.

Margir nota hjól í borginni enda ágætur sérmerktir hjólreiðastígar víða. Hjólaleigur finnast víða en nokkuð fyrir utan miðborgina. Vænlegast að reyna bás Deutsche Bahn á brautarstöðinni. Þeir leigja hjól í skemmri tíma.

Svo sem segja má um allar stærri borgir Evrópu er bíll sennilega til trafala hér. Umferð þung og kurteisi bílstjóra almennt ekki til að dreifa. Bílastæði dýr og ekki einfalt að finna. Þó bíllinn veiti mikið frelsi er vafasamt að ferðamenn njóti borgarinnar betur.

Söfn og sjónarspil

Sem fyrr segir hafa borgaryfirvöld reynt eftir mætti að fela þá staðreynd að Frankfurt er töluverð gerviborg þegar allt kemur til alls. Það er meðal annars gert með því að reisa söfn hér eins og enginn sé morgundagurinn. Þau eru mörg hver hreint ágæt.

Til umhugsunar: Einn er sá staður í borginni öðrum fremri þegar kemur að söfnum. Það er Safnabakki, Museumsufer, við bakka Main árinnar í suðurhlutanum. Þar finnast á tiltölulega litlum bletti ein tólf söfn þó ekki séu öll ýkja merkileg né vinsæl. Þar fer árlega fram Museumsufer fest þar sem öllu er sérstaklega til tjaldað.

> Arkitektasafnið (Deutsches Architektur Museum) – Byggingar og arkitektúr í Þýskalandi öllu. Ágætt safn við Schaumankai götu en kannski lítt áhugavert nema fyrir sérstakt áhugafólk um slíkt. Strætisvagn 46 að Safnabakkanum. Opið alla daga nema mánudaga milli 11 – 18. Aðgangur 1100 krónur. Heimasíðan.

> Þýska kvikmyndasafnið (Deutsches Film Museum) – Þýskar kvikmyndir skipa hér aðalsess. Fróðlegt en varla húrrandi skemmtilegt nema fyrir harðkjarna kvikmyndaáhugamenn. Strætisvagn 46 að Safnabakkanum. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Aðgangur 700 krónur. Heimasíðan.

> Städel listasafnið (Städel Museum) – Þekktasta og að margra mati besta listasafn borgarinnar er þetta hér. Fjölbreytt safn verka og farandsýningar algengar. Að baki safnsins er listaskóli með ágætu kaffihúsi. Strætisvagn 46. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Aðgangseyrir 2100 krónur. Heimasíðan.

> Giersch héraðssafnið (Museum Giersch) – Forvitnilegt safn við Schaumainkai götu þar sem öll áhersla er á listamenn úr borginni og héraðinu. Stórt og fjölbreytt safn málverka, skúlptúra og vídeólistaverka. Strætisvagn 46 að Stresemannallee. Opið alla daga 12 – 19 nema mánudaga. 12 – 17 á föstudögum. Aðgangseyrir 860 krónur. Heimasíðan.

> Hönnunarsafnið (Museum für Angewandte Kunst) – Hönnun frá A til Ö hér til sýnis. Lítið safn er skemmtilegt og hingað sækja nemar mikið fyrir innblástur. Fullt af lífi í þokkabót sem er ekki ýkja algengt á söfnum almennt. Fínt kaffihús í bakgarðinum. Strætisvagn 46. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Punga þarf út 860 krónum. Heimasíðan.

> Liebieg safnið (Liebieghaus) – Lítið safn sem eingöngu hýsir skúlptúra og styttur hvers konar frá hinum ýmsu tímum og ýmsu áttum. Strætisvagn 46. Opið 10 – 17 alla daga nema mánudaga. Kostnaður 500 krónur. Heimasíðan.

> Heimsminjasafnið (Museum der Weltkulturen) – Eitt besta safn borgarinnar er þetta safn sem er þó afskaplega lítið og þess vegna er sýningum breytt ört enda komast munir safnsins engan veginn fyrir í litlu plássinu. Hér má sjá ýmsa fallega og forvitnilega hluti frá ýmsum skeiðum mannkyns hvaðanæva úr veröldinni. Strætisvagn 46. Opið alla daga nema mánudaga 10 – 20. Miðaverð 700 krónur. Heimasíðan.

> Gyðingasafnið (Jüdisches Museum) – Líkt og annars staðar í Þýskalandi voru gyðingar hér í Frankfurt í töluverðum mæli. Hér er saga þeirra og örlög rakin í máli og myndum. Ekki merkilegt miðað við betri söfn um gyðinga en safnið í glæsilegri byggingu sem eitt sinn var í eigu Rothschild fjölskyldunnar. Safnið tilheyrir Museumsufer svæðinu en er hinu megin bakkans frá öllum öðrum söfnunum. Strætisvagn 46 og labb yfir ánna. Opið 10 – 17 nema mánudaga. Aðgangur 460 krónur. Heimasíðan.

> Senckenberg náttúrufræðisafnið (Naturmuseum Schenkenberg) – Eitt af þekktari og betri söfnum borgarinnar er þetta hér sem eins og nafnið gefur til kynna með áherslur sínar á náttúrufræðin. Mikið af sjá og um að gera að grípa börnin með enda margt skemmtilegt fyrir þau að sjá og fikta með. Sporvagn að Bockenheimer Warte og stutt labb þaðan. Opið 9 – 17 daglega nema mánudaga. Verð fyrir fullorðinn 460 krónur. Heimasíðan.

> Goethesafnið (Frankfurter Goethehaus) – Þó áherslan sé mest á þennan fræga Þjóðverja og verk hans er safn þetta fjölbreyttara en það. Málverk víða að en frá þeim tímum sem Goethe sjálfur var uppi. Hetjan fæddist á þessum stað. Opið 10 – 18 alla daga nema mánudaga. Miðaverð 860 krónur. Heimasíðan.

> Seðlabankasafnið (Geld Museum) – Fyrir peningaóða gæti verið gott mál að koma við hér í safni Seðlabanka Þýskalands. Mynt og peningar í öllu sínu veldi. Strætisvagn 34 að Mönchofstraße. Opið virka daga 10 – 17. Frír aðgangur. Heimasíðan.

> Gamli miðbærinn (Römerberg) – Enn eimir eftir af eldgamla miðbæ Frankfurt og velflestir sem um miðborgina fara munu rekast á hann fyrr en síðar. Velflestar byggingarnar eru frá 14 og 15 öld og voru að mestu eyðilagðar í heimstyrjöldinni síðari. Hvert og eitt einasta þeirra var endurbyggt í kjölfarið og skapar þessum hluta borgarinnar áberandi eðalsess meðal skýjakljúfa úr stáli og gleri. Römer heitir ráðhús borgarinnar. Engin vandkvæði að finna staðinn rétt norður af Eiserner Steg brúnni.

> Grasagarðurinn (Palmengarten) – Grasagarður borgarinnar er sannkölluð vin og í góðu meðallagi miðað við slíka garða í Evrópu. Eðalstaður til slökunar eða kaffidrykkju eftir göngutúra um borgina. Viðburður algengir um helgar. Örskammt frá náttúrufræðisafninu. Sporvagn að Bockenheimer Warte. Opinn daglega 9 – 18. Aðgangur 1200 krónur. Heimasíðan.

> Járnbrúin (Eiserner Steg) – Gömul og fjölfarin göngubrú skammt frá gamla miðbænum. Líf og mikið útsýni.

> Gamla óperan (Alte Oper) – Í miðborginni má finna þessa glæsilegu byggingu sem reyndar er ekki lengur vettvangur óperusöngvara. Hér er þó algengt að ýmsir viðburðir fari fram og margir þeirra ókeypis. Jarðlest að Alte Oper. Heimasíðan.

> Pálskirkja (Paulskirche) – Nokkuð sérkennileg hringlaga kirkja sem hefur fyrir löngu lokið hlutverki sínu sem kirkja. Hér þingaði til að mynda fyrsta lýðræðislega kosna stjórn Þýskalands á sínum tíma. Kirkjan enn notuð til brúks þó Kristur komi þar ekki við sögu. John F. Kennedy hélt hér eftirminnilega ræðu árið 1963. Hana er auðvelt að finna enda í næsta nágrenni við ráðhúsið við Römertorg. Opin daglega 9 – 17.

> Bornheim hverfið (Bornheim) – Eitt líflegasta hverfið í borginni er þetta ágæta hverfi og er gatan Berger Straße rauði þráðurinn í hverfinu. Hana er auðvelt að finna enda gengur hún út frá miðborginni. Fyrir utan fjölda smærri bara og verslana eru hér bændamarkaðir og almennt líflegt um að litast. Síðast en ekki síst er þetta eini hluti borgarinnar sem slapp alfarið við skemmdir í Seinni heimsstyrjöldinni. Prófið endilega Ebbelwoi krá sem töluvert er af hér.

Verslun og viðskipti

Frankfurt er ekki á spjöldum sögunnar fyrir sérstaklega hagkvæm innkaup og gildir það um nánast allt. Sökum þess að borgin býr við hvað mesta velmegun í öllu landinu tekur verðlagning mið af því. Með tilliti til fallinnar krónu er ólíklegt að gera kjarakaup hér á nokkrum tímapunkti.

Sé full heimild á kreditkortinu og verslunarbakterían þig alveg að drepa er ráðlegast að leggja borg undir fót og koma sér til Zeil. Zeil er aðalverslunargata borgarinna með ótiltekið úrval verslana af öllum stærðum og gerðum. Þar eru merkjavöruverslanir við hliðina á óþekktum búllum og næsta víst að hér finna flestir eitthvað við hæfi. Það tekur þó töluvert á enda er þetta ein annasamasta verslunargata Evrópu. Verslanir eru einnig í öllum nálægum götum við Zeil.

Vilji menn finna eitthvað öðruvísi en finnst alls staðar annars staðar er líklegast að finna það í Berger Straße eða Leipziger Straße. Í þeim báðum er nokkur fjöldi hönnuða sem eru lítt þekktir utan borgarinnar en bjóða fína vöru þó deila megi um verðin.

Markaðir eru nokkrir í borginni. Þeir helstu eru:

    • Bornheimer Wochenmarkt – Fínn bændamarkaður með eins ferskar vörur og frekast er völ á. Opinn miðvikuö og laugardaga milli 8 og 16. Jarðlest til Bornheim Mitte.
    • Erzeugermarkt – Annar ferskvörumarkaður en þó með áherslu á allt sem þjóðlegt er. Tiltölulega stór með 54 sölubásum. Opinn á fimmtudögum 10 – 20 og laugardögum milli 8 og 17. Jarðlest að Konstablerwache
    • Kleinmarkthalle – Krydd og fiskmarkaður er besta orðið yfir þennan vinsæla markað við Hasengasse. Opið alla daga nema sunnudaga milli 8 og 16. Jarðlest að Hauptwache.
    • Schillerstraße markt – Hér er einnig ferskvara til sölu en ennfremur handverk ýmis konar. Sennilega besti markaðurinn ætli menn ekki að versla matvörur. Opinn á föstudögum milli 9 og 18. Jarðlest að Hauptwache.

Verslunarmiðstöðvar eru hér sem víðar en þær eru satt best að segja allar í dýrari kantinum miðað við íslensk veski og dýrari almennt en hefðbundnar verslanir í borginni. Þær helstu eru:

Matur og mjöður

Þýskur matur er ekki allra en gnótt hefðbundinna slíkra staða er að finna um alla borg. Þá er enginn skortur á hinum hefðbundnu skyndibitastöðum né matsölustöðum sem prýða allar borgir heims.

Heimamenn halda úti veitingahúsasíðu þar sem finna má veitingastaði eftir tegundum. Sú síða hér.

Drykkir eru Þjóðverjum jafn ómissandi og slátur er Skotum. Tonn er af börum hér og ekki síst er forvitnilega að tölta sér inn á einn af fjölmörgum Epplavínsbörum, Ebbelwoi, en sá frægi drykkur er héðan úr héraði og menn stoltir af. Það verður að prófa þótt bragðið sé ekki allra.

Líf og limir

Því miður er Frankfurt ein af leiðinlegri borgum Þýskalands þegar að glæpum kemur. Sannast þar enn og aftur þó margir neiti því að glæpir eru ávallt mestir, flestir og alvarlegastir þar sem mest bilið er milli ríkra og fátækra. Frankfurt er ekki bankamiðstöð Þýskalands og í raun Evrópu fyrir ekki neitt og laun þar há og fín séu menn með vinnu. Það á hins vegar ekki við um 17 prósent íbúanna sem margir eru innflytjendur.

Alvarlegir glæpir gagnvart ferðafólki eru óalgengir en ekki er í raun ráðlegt að vera mikið á ferli neins staðar í borginni þegar fram á nótt kemur. Sérstaklega ekki ein ykkar liðs. Á þetta við um alla borgina en sérstaklega skal forðast svæðið kringum aðalbrautarstöðina og þar sem hópar innflytjenda safnast saman.

View Larger Map

RATVÍSI

MYNDBAND