Nýtt hraðtilboð Icelandair hefur séð dagsins ljós og geta áhugasamir nú skotist til fjögurra erlendra áfangastaða á lægra verði en gengur og gerist.

Örtröð og læti en gaman samt og hægt að gera massíf góð innkaup.

Um er að ræða ferðir sem fara verður í haust og vetur og í boði eru borgirnar London, Helsinki, Þrándheimur og Washington.

Við fyrstu sýn kannski heillast ekki margir enda hvorki London, Helsinki né Þrándheimur sérstaklega spennandi áfangastaðir þegar hitastig á þessum stöðum er lægra en hér á Fróni. Sérstaklega á það við um Helsinki og Þrándheim.

En einn staður, Washington, ætti að gleðja alla eyðsluseggi með vasa fulla af peningum. Sú borg er nefninlega í boði milli 14. október og 13. desember sem þýðir að fólk getur tekið þátt í Svarta föstudeginum þann 23. nóvember.

Og vitir þú ekki hvað Svarti föstudagur stendur fyrir ertu sennilega minni eyðslukló en þú taldir þig vera. Þann dag hefst formlega jólaverslunin vestur í Bandaríkjunum og kaupmenn þarlendir bjóða ýmis feit og fýsileg tilboð þann dag. Tilboð sem sjást yfirleitt ekki aftur það árið og tilboð sem munu aldrei sjást hérlendis.

Í þokkabót eru velflestar verslanir opnar von úr viti. Sumar þær stærstu opna strax á miðnætti þann 23. meðan aðrar bíða til fjögur eða fimm um nóttina.

Er þetta jafnvel sjónarspil fyrir þá sem engan hafa áhuga að versla því örtröðin, lætin og vitleysan öll í kringum þennan verslunardag er kostuleg.

Í öllu falli eru tilboð Icelandair svohljóðandi:

  • London frá 14.900 krónur aðra leið eða báðar leiðir frá 33.100 krónum. Ferðatími 19.september til 14. desember.
  • Helsinki frá 14.900 kónum aðra leið en báðar frá 27.700 krónum. Ferðatíminn 16.september til 21.desember.
  • Þrándheimur frá 14.900 krónum aðra leið og frá 28.100 krónum fram og tilbaka. Ferðatími 20.september til 13. desember.
  • Washington frá 27.900 krónum út og báðar leiðir frá 50.600 krónum.

Heimasíða Icelandair hér.