Þó kannski megi deila nokkuð um nákvæma merkingu þess að veita þjónustu hljóta flestir að vera sammála um að fyrirtæki sem selur vöru og sendir svo viðskiptavininn eitthvað allt annað til að klára kaupin er varla að bjóða góða þjónustu.

Flugsætin sem hvergi finnast hjá Heimsferðum. Skjáskot
Flugsætin sem hvergi finnast hjá Heimsferðum. Skjáskot

Sem merkir þá að ferðaskrifstofan Heimsferðir er ekki að veita góða þjónustu hvað varðar skíðaferðir fyrirtækisins í vetur. Þar á bæ eins og reyndar annars staðar er það orðin lenska að kalla flug út í heim og gistingu upp í fjöllum „skíðaferð“ þó í öllum tilvikum þurfi að greiða aukalega fyrir að komast milli flugvallar og fjallaþorpsins og fyrir utan þá merkilegu staðreynd að engin skíði fylgja með.

Ef það er ekki á nippinu að kallast vörusvik að auglýsa skíðaferðir á ákveðnu verði sem svo reynast ekki skíðaferðir og þaðan af síður á auglýstu verði skal ritstjórn Fararheill hundur heita. Og hvers vegna slíkt ósamræmi milli skíðaferða og golfferða? Heimsferðir auglýsa engar golfferðir án þess að innifalið sé golf en hvorki skíði, ferðir né skíðapassar fylgja með í skíðaferðum!

Burtséð frá því öllu er ægilega dapurt að senda svo viðskiptavininn annað til að klára kaupin. Það er að segja að kaupi fólk „skíðaferð“ hjá Heimsferðum og vilji nú kannski taka skíði eða bretti með í brekkurnar þá skal fólk gjöra svo vel að greiða fyrir það annað hvort í Leifsstöð við brottför ellegar á heimasíðu flugfélagsins sem um ræðir.

Fleira sem Heimsferðir, ein stærsta og vinsælasta ferðaskrifstofa landsins, gæti fært til betri vegar er að auglýsa ekki vörur sem svo ekki eru í boði á heimasíðu fyrirtækisins. Það á við um flugsæti til Salzburg sem Heimsferðir auglýstu í dag fram og aftur á 59.900 krónur en slíkt gefur áhugafólki færi á að skipuleggja ferð sína sjálf. En á bókunarvef fyrirtækisins eru engin flugsæti í boði til Salzburg. Er hugmyndin að fólk eigi að koma á staðinn og þá greiða það aukagjald sem fyrirtækið setur upp fyrir afgreiðslu á staðnum?

Dapurt með stóru D-éi.