Það eru engar fréttir fyrir hugsandi fólk að það er oft vandlifað í henni veröld. Nú berast fregnir af því að fara ber æði varlega þegar bókaðar eru íbúðir og villur erlendis gegnum stórar, þekktar íbúðaleigur.

Nú eru íbúðaleigur vafasamar og fara skal að öllu með gát.
Nú eru íbúðaleigur vafasamar og fara skal að öllu með gát.

Bæði Guardian og Sunday Times í Bretlandi skýra frá því að ekki sé allt með felldu hjá þeim allra stærstu í sumarhúsabransanum. Þar á meðal fyrirtæki sem Fararheill hefur bent á gegnum tíðina.

Í ljós kemur að öryggi hjá nokkrum þeim allra stærstu í bransanum er verulega ábótavant. Óprúttnir aðilar hafa gert sér leik að því að þykjast vera eigendur íbúða og einbýla gegnum netið sem svo veldur því að fólk sem telur sig vera að leigja eignir tímabundið erlendis á Spáni, Ítalíu, Frakklandi og víðar kemst að því á áfangastaðnum að það er bara alls ekkert búið að leigja nokkurn skapaðan hlut. Aðeins gert tékkareikning óprúttinna aðila aðeins feitari.

Um er að ræða fyrirtæki á borð við HomeAway og Owner´s Direct sem bæði hafa á sínum snærum hundruð þúsund eigna sem leigðar eru út til skemmri tíma hér og þar í heiminum. En öryggi er ekki meira en svo að hægt er að komast inn í kerfi þessara fyrirtækja og þykjast vera eigandi eða eigendur þegar forvitnir vilja meira upplýsingar. Raunverulegir eigendur eru engu nær og þess vegna kemur fólk stundum að lokuðum dyrum villu þótt sama villa hafi verið bókuð og greidd í topp fyrir komu.

Þar sem aðeins er um fáein skemmd epli að ræða er synd að hætta viðskiptum við þessi fyrirtæki því úrvalið er stórkostlegt og á báðum stöðum oft á tíðum sértilboð á besta tíma. En ganga skal úr skugga um að samskiptin séu í raun og veru við eigandann sjálfan og ALLS EKKI greiða neitt fyrirfram ef tök eru á. Best að greiða aðeins innborgun sé þess krafist og gera þá upp á staðnum þegar þangað er komið. Ellegar getur fólk lent í því að koma að lokuðum dyrum meðan einhver miður góður gaur er á filleríi með 400 þúsund kallinn sem fólk hefur greitt fyrir mánaðarleigu á villu á Spáni.

Leave a Reply