Ferðamálaráðherra Indlands hefur verið vandi á höndum um nokkurra ára skeið. Ítrekað hefur verið ráðist á erlenda ferðamenn í landinu og í nokkrum velþekktum tilfellum erlendum konum nauðgað og þær jafnvel skildar eftir nær dauða en lífi. Ekki alveg orðsporið  til að trekkja fleiri ferðamenn til landsins.

Mesta ferðamannagildra Indlands er Taj Mahal en þar eru tækifærissinnaðir heimamenn á útopnu kringum ferðamenn. Mynd Andreas H
Mesta ferðamannagildra Indlands er Taj Mahal en þar eru tækifærissinnaðir heimamenn á útopnu kringum ferðamenn. Mynd Andreas H

Hryllilegar nauðganir og morð á stöku ferðamönnum komast auðveldlega í heimspressuna en þess utan þarf háttsettur ráðherrann að glíma við annað stórvandamál. Afar margir ferðamenn verða strax þreyttir og pirraðir á sífelldum ágangi sölumanna á hverjum einasta túristastað. Indverjar eru engir aukvisar í ágangi heldur hreint og beint heimsmeistarar í faginu og oft þarf miklar fortölur til að komast frá slíkum mönnum eða hópi manna. Stundum dettur í handalögmál þegar heimamenn gefa sig ekki.

Nú ætlar herra ráðherra að gera gangskör til breytinga og það með því að setja lög sem leyfa lögreglu að sekta alla þá sem snerta, toga í eða trufla erlenda ferðamenn á vinsælum stöðum eins og við Taj Mahal. Fangelsisdómur bíður ef sektin verður ekki greidd samstundis.

Hvort það mun hafa áhrif kemur í ljós en líkurnar varla miklar. Tækifærissinnar kringum staði á borð við Taj Mahal skipta hundruðum daglega og það er einfaldlega engin leið fyrir fámenna lögreglu að halda aga á öllum þeim mannskap.

Líklega auðveldara annars staðar en slík lög koma ekki í veg fyrir það allra versta við ferðir hér sem er auðvitað líkamsárásir, þjófnaðir svo ekki sé talað um nauðganir á ferðamönnum.

Leave a Reply