Hvernig í ósköpunum fólki dettur í hug að stórfyrirtæki beri hag viðskiptavina fyrir brjósti er skýrt merki um að kennarar þessa lands eru ekki að standa sig í stykkinu.

Bros og vingjarnlegheit hjá Hertz. En vinalegheitin rista ekki djúpt.

Stórfyrirtæki hafa þann háttinn á að þau auglýsa grimmt allt hið „góða” sem þau gera en gæta þess jafnframt að lítið sem ekkert fari fyrir hlutum sem koma sér illa fyrir viðskiptavini eða neytendur aðra.

Bílaleigan Hertz eitt dæmið um slíkt. Engin fréttatilkynning barst fjölmiðlum fyrir ekki svo löngu þegar risafyrirtækið Hertz skar niður vildarpunkta viðskiptavina um 70 PRÓSENT í einu vetfangi. Þú veist, þessa vildarpunkta sem þú safnar árum saman til að fá bíltík einn góðan veðurdag fyrir slikk af því að þú verslaðir ALLTAF við Hertz. Svipaðir vildarpunktar og Icelandair etur að þér lon og don.

Fátt fúlara en eiga viðskipti við eitt tiltekið fyrirtæki sökum vildarpunkta árum og jafnvel áratugum saman og svo fatta einn góðan veðurdag að fyrirtækið ætlar ekki alveg að standa við sitt. Það þarf jú að sýna hluthöfum feitan hagnað og vildarpunktakerfi ekki hluti af því. Rolls Royce bifreiðin í Mónakó sem þú áttir inni í tvær vikur eftir að hafa átt viðskipti við Hertz um áratugaskeið er ekki lengur séns. Nema náttúrulega þú borgir feitt extra.

Gettu svo hvaða aðili rekur bílaleigu Hertz á Íslandi, býður jafnframt upp á vildarpunktakerfi og kurlin koma til grafar…