Töluverður fjöldi Íslendinga hefur lagt land undir fót til að heimsækja Íslendingaslóðir í og við Manitóba í Kanada í því skyni að fræðast um gæfu og gjörvileika á Nýja-Íslandi. Öllu færri hafa látið sig hafa að feta í fótspor Leifs Heppna og sótt heim Vínlandið góða þar sem norrænir menn stigu fyrst niður fæti í nýrri heimsálfu.

Litrík er hún St.Johns í Kanada eða Vínlandi kannski öllu frekar
Litrík er hún St.Johns í Kanada eða Vínlandi kannski öllu frekar

Vínland er náttúrulega það nafn sem víkingarnir gáfu því sem nú er Nýfundnaland, Labrador og mögulega önnur landsvæði sunnar en þær eyjur. Hörmuleg hneisa að það nafn gleymdist, ekki síst þar sem hugmyndasnauðum Bretum löngu síðar datt ekki einu sinni í hug að skíra það heldur færðu nýfundið land, new found land, til bókar. Sem auðvitað er nú nafn landsins og verra er það fyrir vikið.

En það er ekki ýkja flókið að komast til Nýfundnalands og þó nafnið kalli kannski ekki fram frygðarstunur hjá mörgum þeim íslensku sjómönnunum sem hér áður fyrr sigldu í alls kyns veðrum æði þétt með afla til löndunar í einu borg héraðsins er það þess virði að leggja í slíkt ferðalag.

Beint flug er með Icelandair til Halifax í Nova Scotia en frá Halifax verður að taka rútu eða bílaleigubíl til strandbæjarins Sidney sem er gróflega fimm klukkustunda akstur. Frá Sidney fara tvær ferjur yfir til Nýfundnalands einu sinni á dag og stöku sinnum oftar yfir sumartímann. Ferðalagið yfir St.Lawrence sundið sem skilur á milli tekur frá sex stundum og upp í 14 stundir eftir því hvaða ferju þú tekur.

Ferjurnar lenda báðar í Basknesku höfninni, Port aux Basques, á Nýfundnalandi og þar verður fólk sem eyjuna ætlar að skoða að hafa bílaleigubíl kláran komi það ekki með einn með sér. Frá Port aux Basques eru vissulega rútur í boði en aðeins til höfuðborgarinnar St.Johns.

St.Johns er hundrað þúsund manna borg og allsæmileg til brúksins en það eru víðáttur eyjunnar sem eru sannarlega aðdráttaraflið hér ekki síður en íslenskt landslag en ekki Reykjavík er númer eitt, tvö og þrjú hjá ferðafólki á Fróni. Vissulega hægt að eyða hér tíma og hér eru til að mynda fyrirtaks fiskveitingastaðir og allnokkur afþreying önnur þó verslunarglaðir brosi sennilega minna en venjulega.

Sagan segir að á minnst einum veitingastað í borginni, Strand Lounge í  Avalon verslunarmiðstöðinni, hafi ráðið ríkjum og ráði kannski enn kona ein Connie að nafni. Sú var svo hrifin af fjölda íslenskra sjómanna sem staðinn sóttu á sínum tíma að hún lét útbúa matseðil á okkar ylhýra íslenska tungumáli. Slíkir veitingastaðir eru sannarlega þess virði að heimsækja.

Sé hugmyndin að heimsækja L´Anse aux Meadows þar sem Leifur okkar og félagar námu land hér mörgum öldum á undan Ítalanum Kólombusi þarf að aka sem leið liggur á norðurtanga Nýfundnalands en frá St.Johns tekur sá rúntur vart minna en sjö til átta stundir. Ráð er því að taka tjald sé fólk virkilega náttúruunnendur ellegar planta rassi í þeim bæjum sem á leiðinni eru því lítið gaman er að stúdera stað Leifs geispandi út í eitt. Yfir sumartímann er rekin hér ferðaþjónusta töluverð og þar gert út á víkingana og liðna tíma.

Gnótt er af dýralífi í eynni og þar má sjá allt frá úlfum og upp í elgi. Bæði skot- ogr og stangveiðar eru mjög vinsælar hér og hægt að kaupa leyfi til slíks í St.Johns.


View Í fótspor Leifs Heppna in a larger map