Merkilega margir staðir á hinni litlu Kanarí státa af forvitnilegum hlutum. Það er þó líklega í grænum og grösugum dal upp af bænum Agaete á norðvesturströnd landsins sem einna merkilegasti hluturinn finnst: Kaffiekrur

Eina „evrópska“ kaffi heims er ræktað í þessum fallega dal á Kanarí.
Eina „evrópska“ kaffi heims er ræktað í þessum fallega dal á Kanarí.

Þessi dalur mun vera, eftir því sem ritstjórn kemst næst, eini staðurinn í Evrópu allri þar sem kaffiræktun á sér stað enn þann dag í dag. Það sem meira er, kaffið atarna er fantagott enda tegundin sem hér er ræktuð eitt elsta afbrigði þeirrar frægu arabica bauna sem farið hafa sigurför um heiminn.

Þess vegna á ekki að koma á óvart að Agaete-kaffið er fokdýrt í samanburði við annað kaffi og telst vera í lúxusflokki í kaffibaunabransanum.

Auðvitað er aðeins verið að svinda hér því tæknilega tilheyra Kanaríeyjur Afríku fremur en Evrópu og þær væru sennilega í Afríku ef spænskir sjófarar hefðu ekki þurft að gera strandhögg á hverju bóli á öllum sínum ferðum.

Burtséð frá því er það æði góð leið til að breyta aðeins til frá þægilegu strandlífinu að bregða undir sig betri fætinum og heimsækja Agaete. Nokkrir aðilar rækta hér kaffi og flestir taka þægilega á móti ferðafólki svo lengi sem ekki er um stóra hópa að ræða. Fararheill mælir óhikað með að banka upp á hjá Victor Jorge sem rekur La Finca la Laja. Sá ræktar ekki aðeins kaffi heldur ágæt vín líka og selur undir merkjum Bodega los Berrazales.

Vínin reyndar fá enga toppeinkunn hvorki hjá okkur né vínfræðingum enda Kanaríeyjar almennt ekki ákjósanlegur staður fyrir vínberjaræktun.

Kaffið hins vegar er fyrsta flokks hafi fólk áhuga fyrir slíku.