Allt kapp er nú lagt á að koma London í fínu fötin áður en blásið verður þar til Ólympíuleikanna næsta sumar. Eitt af því sem borgaryfirvöld hyggjast gera er að koma fyrir fljótandi göngubrú yfir Thames ánna en brúin atarna mun gefa gangandi vegfarendum tækifæri til að ganga þurrum fótum á Thames alla leið frá miðbænum og út að Tower of London brúnni.

Þykir það nokkuð lýti á borginni hversu aðgengi og göngustígar eru takmarkaðir meðfram norðurhlið Thames þó þar sé að finna mikið af glæsilegum byggingum og söfnum á borð við Tate Modern. Er það öfugt við það sem gerist sunnanmegin þar sem breiðar göngugötur þýða auðvelt aðgengi og þar er eðli málsins samkvæmt mun fleira ferðafólk.

Er brúin byggð í einkaframkvæmd en verkefnið hefur hlotið nafnið London River Park.

Á brúnni á að koma fyrir söluturnum og öðru slíku ásamt litlum yfirbyggðum garði. Fær borgin sjálf 20 prósent allra tekna í stað þess að leyfa byggingu brúarinnar.

Endanleg útfærslu liggur ekki fyrir en á myndinni má sjá gróflega hvað menn ætla sér fyrir. Brúin hefur þó hlotið samþykki og mun verða tilbúin áður en fyrstu ferðamennirnir koma á Ólympíuleikanna að ári.