Þeim fer fjölgandi hérlendis sem byrjað hafa að twitta eða tísta eins og það er kallað en erlendis nýtur samskiptaforritið Twitter verulegra vinsælda.

Twitter er í raun samskiptagluggi út í heim og allir geta lesið það sem lagt er þar á borð en þó mega skilaboðin aldrei fara yfir 140 stafi í hvert sinn. Það þýðir að fljótlegt er að lesa og hægt er að stilla það á þann hátt að aðeins komi fram skilaboð frá ákveðnum aðilum eða fyrirtækjum.

Fyrir þá sem snúa upp á nefið og hnussa er ástæða til að benda á að hvergi annars staðar kynna flugfélög, hótel, gisti- og veitingastaðir upp á jafn mörg tímabundin sértilboð sín en einmitt gegnum Twitter. Það þýðir að skráning þar býður upp á mun fleiri möguleika að ferðast og gista ódýrt en ella og veitir víst ekki af hjá mörgum Íslendingum.

Þarf þó fyrst í stað að eyða svolitlum tíma að skrá helstu flugfélög eða stærri hótel en sé fólk sjúkt af ferðabakteríunni er það þess virði. Einn úr ritstjórn Fararheill.is hefur gist á fimm stjörnu hóteli á Costa del Sol eina nótt fyrir 7.300 krónur íslenskar vegna tilboðs sem birtist aðeins á Twitter og var ekki í boði á heimasíðu hótelsins. Það munar um minna því reglulegt verð fyrir umrætt herbergi: 26.250 krónur.